Vellíðan og vöxtur

Sagan mín
Jóga í mínum huga er vegferðin inn á við. Leiðin heim til mín. Ég finn það svo sterkt í gegnum Yoga Nidra. Ég útskrifaðist með kennararéttindi frá Amrit Yoga Institute undir leiðsögn Kamini Desai haustið 2019 og það er ein besta ákvörðun sem ég hef tekið. Að leiða fólk inn í kyrrðina handan hugans er ástríða, eitthvað sem ég elska að gera. Því ég veit hvað það gerir fyrir líkama, huga og sál. Það er eitt af því sem hefur breytt lífi mínu til hins betra.
Ég er hjúkrunarfræðingur að mennt og útskrifaðist frá Háskóla Íslands árið 2009. Ég hef starfað við það síðustu ár á ýmsum vettvangi en sú starfsreynsla hefur nýst mér vel í lífinu. Hjúkrun er í eðli sínu heildræn nálgun á einstaklinginn og er fullkomin blanda við jógísk fræði. Ég er einnig með kennararéttindi í Qigong frá Five Immortals Temple undir leiðsögn Nicolai Engelbrecht.
Ég fór í fyrsta jógatímann minn árið 2008. Ég fann það strax að jóga var eitthvað fyrir mig. Síðan þá hef ég iðkað alls kyns jóga & hugleiðslu, verið dugleg að sækja ýmis námskeið & viðburði. Ég hef tileinkað mér forvitni og lít alltaf á mig sem nemanda lífsins. Ég hef lengi átt mér þann draum að hver einstaklingur geti lifað í sátt við sjálfan sig og aðra. Í mínum huga er lykillinn að því að finna innra með okkur sjálfum.
Með friðarkveðju,
Kristín Bára Bryndísardóttir